Ábyrgð leigutaka:
4.3.1 Með undirritun sinni staðfestir leigutaki a) að hafa tekið við hinum leigða búnaði ásamt fylgihlutum í góðu ásigkomulagi og b) að hafa móttekið og kynnt sér leiðbeiningar um notkun og meðferð hins leigða búnaðar. Leigutaki ber ábyrgð á því að farið sé að réttum öryggisreglum og notkunarleiðbeiningum frá framleiðanda, og eftir atvikum Exton ehf., við notkun, uppsetningu, frágang og flutning búnaðarins.
4.3.2 Ábyrgð leigutaka á hinum leigða búnaði hefst við móttöku hans og lýkur þegar búnaði hefur sannanlega verið skilað í hús til Exton ehf. Búnaður í flutningi er á ábyrgð leigutaka.
4.3.3 Hinn leigði búnaður er eign Exton ehf. Leigutaki má ekki selja, leigja, veðsetja eða með nokkrum öðrum hætti afsala sér umráðum hins leigða búnaðar. Leigutaki ber einnig fulla ábyrgð ef búnaður tapast eða honum er stolið úr vörslu hans Ef Exton ehf. glatar rétti til hins leigða búnaðar vegna slíkra atvika þá ábyrgist leigutaki að greiða Exton ehf. fullt endurstofnverð hins leigða búnaðar án tillits til aldurs eða slits á honum. Þar til nýr búnaður hefur verið útvegaður í stað þess sem Exton ehf. glataði rétti til skal leigutaki borga fulla leigu, auk alls afleidds tjóns sem Exton ehf. kann að verða fyrir vegna missis hins leigða búnaðar. Leigutaki samþykkir að Exton ehf. skuldfæri kreditkort leigutaka fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 5.3.
4.3.4 Leigutaki ábyrgist sérstaklega að hann muni ekki nýta búnað frá Exton ehf. til lögbrota af neinu tagi, þ.m.t. brot á löggjöf um höfunda- og hugverkarétt. Leigutaki ábyrgist jafnframt greiðslur hverskonar leyfisgjalda og höfundarréttargjalda sem af notkun búnaðarins kann að leiða.
4.3.5 Leigutaka er óheimilt að nota hinn leigða búnað á öðrum stöðum en þeim sem Exton ehf. hefur samþykkt. Ef nota á búnað utandyra skal hann tryggilega skorðaður eða festur og leigutaki skal útvega veðurvarnir á sinn kostnað, t.d. vatns- og vindhelt tjald yfir búnað.
4.3.6 Leigutaki ber ábyrgð á því að þeir sem koma til með að vinna með eða við hinn leigða búnað hafi fengið til þess leiðbeiningar og að jafnan sé nauðsynleg þekking til staðar til uppsetningar og notkunar hins leigða búnaðar. Leigutaki ber ábyrgð á því að eftirlit sé með búnaði í notkun, og ávallt þar sem börn eru að leik, svo sem við „hoppukastala“ og önnur leiktæki.
4.3.7 Leigutaki ber ábyrgð á öllu tjóni sem kann að verða á hinum leigða búnaði eða af hans völdum, og má rekja til þess að ekki hefur verið farið eftir réttum reglum og leiðbeiningum um öryggi og notkun búnaðarins, eða eftirliti með búnaði í notkun hafi verið ábótavant.
4.3.8 Leigutaki ábyrgist að notaður sé réttur rafstraumur, rafspenna og jarðtenging í tengslum við búnað Exton ehf. Ef leigutaki hyggst nota hinn leigða búnað í tengslum við önnur tól eða tæki skal hann ábyrgjast að um samhæfðan búnað sé að ræða, sem ætlaður er til notkunar með búnaði Exton ehf.