LEIGU- OG SÖLU- SKILMÁLAR EXTON EHF

Gildissvið og skilgreiningar

1.1

Skilmálar þessir gilda um leigu og sölu búnaðar frá Exton ehf., kt. 470499-2069, Vesturvör 30c í Kópavogi. Búnaður í þessum skilmálum er hverskonar búnaður, tæki eða tól sem Exton ehf. leigir eða selur á hverjum tíma. Mál sem kunna að rísa vegna skilmála þessara má höfða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eða Héraðsdómi Reykjaness.

1.2

Með leigu/kaupum á búnaði frá Exton ehf. samþykkir viðskiptamaður öll ákvæði þessara skilmála.

Söluskilmálar

2.1

Kaupandi hefur kynnt sér ástand búnaðarins og sættir sig við hann að öllu leyti.

2.2

Exton ehf. veitir skráðum kaupanda eins árs ábyrgð frá dagsetningu reiknings/kaupnótu á öllum verksmiðju- eða efnisgöllum á búnaði þeim sem tilgreindur er á reikning/kaupnótu og framkvæmir í því sambandi allar nauðsynlegar viðgerðir kaupanda að kostnaðarlausu, sbr. þó ákvæði laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Ábyrgð er ekki staðfest nema að reikningi/kaupnótu sé framvísað og nær ábyrgðin eingöngu til búnaðarins sem talin er upp á reikningnum/kaupnótunni en ekki til neins konar afleidds tjóns.

2.3

Ábyrgðarviðgerðir eru framkvæmdar á starfsstöð Exton ehf. að Vesturvör 30c, 200 Kópavogi. Sé þess óskað að viðgerð fari fram á notkunarstað skal greitt fyrir ferðatíma og akstur. Verði nauðsynlegt að senda búnað til viðgerðar skal honum pakkað í samræmi við leiðbeiningar frá framleiðanda.

2.4

Ábyrgð skv. 2.2. fellur niður ef: (1) aðrir en starfsmenn Exton ehf. hafa gert við búnaðinn eða hafa gert tilraun til að gera við hann, (2) verksmiðjunúmer hefur verið fjarlægt, (3) búnaður hefur verið tengdur við ranga spennu eða straumtegund, (4) ef um eðlilegt slit er að ræða, (5) ef hið selda er notaður búnaður, (6) við uppsetningu eða notkun er ekki fylgt leiðbeiningum framleiðanda, (7) búnaður verður fyrir hnjaski, rangri meðferð, náttúruhamförum, eða truflunum frá raforkukerfi, (8) ef kaupandi hefur gert breytingar á hinum keypta búnaði án samráðs við Exton ehf.

2.5

Exton ehf. á söluveð í hinum seldu munum til tryggingar á samanlögðu kaupverði skv. framhlið reiknings þessa, vöxtum og kostnaði skv. 35. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Standi kaupandi ekki í skilum með framangreint kaupverð er Exton ehf. heimilt að láta selja hið veðsetta nauðungarsölu til fullnustu kröfu sinni eða rifta söluveðsetningunni og krefjast afhendingar hins veðsetta. Áframsala á hinu keypta er kaupanda óheimil þar til kaupverð er að fullu greitt nema með skriflegu samþykki Exton ehf.

Skilmálar vefverslunar

3.1

Exton ehf. áskilur sér rétt til að hætta við pantanir, t.d. vegna rangra verðupplýsinga og einnig að breyta verðum eða hætta að bjóða upp á vörutegundir fyrirvaralaust.

3.2

Öllum pöntunum er dreift af Íslandspósti og gilda afhendingar-, ábyrgðar og flutningsskilmálar Íslandspósts um afhendingu vörunnar. Exton ehf. ber samkvæmt þessu enga ábyrgð á tjóni sem kann að verða á vöru í flutningi. Verði vara fyrir tjóni frá því að að hún er send frá Exton ehf. og þar til hún berst viðtakanda er tjónið á ábyrgð flutningsaðila.

3.3

Vinsamlegast athugið að verð á netinu getur breyst án fyrirvara. Tilboð í vefverslun gilda í sumum tilfellum eingöngu fyrir vefverslun. Með sama hætti gilda tilboð í verslunum Exton ehf. ekki alltaf í vefverslun.

 

3.4

Öll verð í netversluninni eru með VSK og reikningar eru gefnir út með VSK.

3.5

Seljandi heitir kaupanda fullum trúnaði um allar þær upplýsingar sem kaupandi gefur upp í tengslum við viðskiptin. Upplýsingar frá kaupanda verða ekki afhentar þriðja aðila undir neinum kringumstæðum.

3.6

Um skilmála þessa gilda ákvæði laga um húsgöngu- og fjarsölu nr. 96/1992, ákvæði laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 eftir því sem við getur átt og ákvæði laga um neytendakaup nr. 48/2003. Allir frestir sem nefndir eru í lögum nr. 96/1992 byrja að líða móttaka vöru á sér stað.

Leiguskilmálar

4.1

Nema annað sé sérstaklega tekið fram skal stysti leigutími vera einn dagur og miðast upphaf leigu við dagsetningu afhendingar í leigusamningi. Síðasti dagur leigu telst sá dagur sem getið er sem skiladags í leigusamningi. Sé búnaði ekki skilað innan hins umsamda tíma skal leigutaki greiða fulla dagleigu fyrir hvern byrjaðan dag, auk alls kostnaðar sem Exton ehf. kann að verða fyrir vegna þess að búnaðurinn stendur ekki öðrum viðskiptavinum til reiðu á réttum tíma. Leigutaki greiðir allan kostnað af flutningi tækis. Ekki fæst endurgreitt eða gefinn afsláttur ef leigutaki getur af einhverjum ástæðum ekki notað búnað sem hann hefur tekið á leigu.

4.2

Leigutaki skal vera lögráða einstaklingur eða eftir atvikum lögaðili. Sá sem skuldbindur lögaðila ábyrgist gagnvart Exton ehf. að hann hafi til þess fullt umboð og skal sýna fram á umboð sitt að kröfu Exton ehf., jafnframt því sem hann tekur persónulega ábyrgð á leigusamningi. Komi upp rökstuddur vafi að mati Exton ehf. um umboð þess er skuldbindur félag eða stofnun er Exton ehf. heimilt að taka hinn leigða búnað í sína vörslu á ný fyrirvaralaust og án allrar bótaskyldu hvenær sem er á leigutímanum.

 

4.3

Ábyrgð leigutaka:

4.3.1 Með undirritun sinni staðfestir leigutaki a) að hafa tekið við hinum leigða búnaði ásamt fylgihlutum í góðu ásigkomulagi og b) að hafa móttekið og kynnt sér leiðbeiningar um notkun og meðferð hins leigða búnaðar. Leigutaki ber ábyrgð á því að farið sé að réttum öryggisreglum og notkunarleiðbeiningum frá framleiðanda, og eftir atvikum Exton ehf., við notkun, uppsetningu, frágang og flutning búnaðarins.

4.3.2 Ábyrgð leigutaka á hinum leigða búnaði hefst við móttöku hans og lýkur þegar búnaði hefur sannanlega verið skilað í hús til Exton ehf. Búnaður í flutningi er á ábyrgð leigutaka.

4.3.3 Hinn leigði búnaður er eign Exton ehf. Leigutaki má ekki selja, leigja, veðsetja eða með nokkrum öðrum hætti afsala sér umráðum hins leigða búnaðar. Leigutaki ber einnig fulla ábyrgð ef búnaður tapast eða honum er stolið úr vörslu hans Ef Exton ehf. glatar rétti til hins leigða búnaðar vegna slíkra atvika þá ábyrgist leigutaki að greiða Exton ehf. fullt endurstofnverð hins leigða búnaðar án tillits til aldurs eða slits á honum. Þar til nýr búnaður hefur verið útvegaður í stað þess sem Exton ehf. glataði rétti til skal leigutaki borga fulla leigu, auk alls afleidds tjóns sem Exton ehf. kann að verða fyrir vegna missis hins leigða búnaðar. Leigutaki samþykkir að Exton ehf. skuldfæri kreditkort leigutaka fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 5.3.

4.3.4 Leigutaki ábyrgist sérstaklega að hann muni ekki nýta búnað frá Exton ehf. til lögbrota af neinu tagi, þ.m.t. brot á löggjöf um höfunda- og hugverkarétt. Leigutaki ábyrgist jafnframt greiðslur hverskonar leyfisgjalda og höfundarréttargjalda sem af notkun búnaðarins kann að leiða.

4.3.5 Leigutaka er óheimilt að nota hinn leigða búnað á öðrum stöðum en þeim sem Exton ehf. hefur samþykkt. Ef nota á búnað utandyra skal hann tryggilega skorðaður eða festur og leigutaki skal útvega veðurvarnir á sinn kostnað, t.d. vatns- og vindhelt tjald yfir búnað.

4.3.6 Leigutaki ber ábyrgð á því að þeir sem koma til með að vinna með eða við hinn leigða búnað hafi fengið til þess leiðbeiningar og að jafnan sé nauðsynleg þekking til staðar til uppsetningar og notkunar hins leigða búnaðar. Leigutaki ber ábyrgð á því að eftirlit sé með búnaði í notkun, og ávallt þar sem börn eru að leik, svo sem við „hoppukastala“ og önnur leiktæki.

4.3.7 Leigutaki ber ábyrgð á öllu tjóni sem kann að verða á hinum leigða búnaði eða af hans völdum, og má rekja til þess að ekki hefur verið farið eftir réttum reglum og leiðbeiningum um öryggi og notkun búnaðarins, eða eftirliti með búnaði í notkun hafi verið ábótavant.

4.3.8 Leigutaki ábyrgist að notaður sé réttur rafstraumur, rafspenna og jarðtenging í tengslum við búnað Exton ehf. Ef leigutaki hyggst nota hinn leigða búnað í tengslum við önnur tól eða tæki skal hann ábyrgjast að um samhæfðan búnað sé að ræða, sem ætlaður er til notkunar með búnaði Exton ehf.

 

4.4

Fyrirvari um ábyrgð Exton ehf:

4.4.1 Exton ehf. er á engan hátt ábyrgt vegna slysa eða skemmda sem orsakast af notkun, meðferð eða flutningi á búnaði sem er í útleigu.

4.4.2 Exton ehf. ber ekki ábyrgð á neinu óbeinu eða afleiddu tjóni, sem leigutaki eða þriðji aðili kunna að verða fyrir, hvaða nafni sem það kann að nefnast. Exton ehf. er ekki ábyrgt fyrir atvikum sem það hefur ekki eða getur ekki haft stjórn á, t.d. vélar- eða hugbúnaðarbilun, truflanir í síma- og fjarskiptanetum, rafmagnsleysi, truflun á starfsemi vegna náttúruhamfara og öðrum sambærilegum atvikum.

4.4.3 Leigutaki ábyrgist skaðleysi Exton ehf. af hverskonar kröfum sem fyrirtækið kann að verða fyrir af hálfu þriðja aðila í tengslum við eða vegna leigu á búnaði til leigutaka. Ef hinn leigði búnaður tengist með einhverjum hætti slysi sem veldur tjóni á búnaðinum eða öðrum eignum eða líkamstjóni skal leigutaki tilkynna Exton ehf. það án tafar sem og viðeigandi yfirvöldum.

4.5

Viðhald búnaðar og tilkynningarskylda

4.5.1 Leigutaki ábyrgist að gengið sé vel um hinn leigða búnað og honum haldið hreinum meðan á leigutíma stendur. Leigutaki ábyrgist að ávallt séu notaðar við flutning og geymslu á hinum leigða búnaði nauðsynlegar hlífar og umbúðir. Leigutaki skal greiða allan þann kostnað sem Exton ehf. kann að verða fyrir vegna slæms frágangs á búnaði eða bilana sem leiða af slæmri umgengni við leigðan búnað, þ.m.t. fullt leigugjald á meðan á frágangi eða viðgerðum stendur sem og bætur vegna afleidds tjóns, þar sem búnaður stendur þá ekki öðrum leigutökum til reiðu. Sérstaklega er áréttað að hér undir fellur vinna við þrif og pökkun hins leigða búnaðar. Leigutaki samþykkir að Exton ehf. skuldfæri kreditkort leigutaka fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 5.3.

4.5.2 Hverskonar bilanir á búnaðinum skal leigutaki tilkynna Exton ehf. án tafar. Leigutaki má ekki undir neinum kringumstæðum reyna að gera við bilanir á hinum leigða búnaði án þess að hafa fengið til þess sérstakt leyfi Exton ehf.

4.5.3 Kostnaður vegna vinnu og varahluta við framkvæmd eðlilegs viðhald fellur í öllum tilvikum á Exton ehf. sbr. þó það sem segir um kostnað við útkall viðgerðarmanns í lið 5.3. Annar viðgerðarkostnaður, þ.m.t. vegna brota á skilmálum þessum eða leigusamningi, fellur í öllum tilvikum á leigutaka. Leigutaki samþykkir að Exton ehf. skuldfæri kreditkort leigutaka fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 5.3.

4.5.4 Ef leigður búnaður týnist eða skemmist að því marki að ekki svari kostnaði að mati Exton ehf. að gera við hann, ábyrgist leigutaki að greiða Exton ehf. fullt endurstofnverð hlutarins án tillits til aldurs eða slits á honum. Þar til nýr búnaður hefur verið útvegaður í stað þess týnda eða eyðilagða skal leigutaki borga fulla leigu, auk alls afleidds tjóns sem Exton ehf. kann að verða fyrir vegna eyðileggingar/hvarfs hins leigða búnaðar. Leigutaki samþykkir að Exton ehf. skuldfæri kreditkort leigutaka fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 5.3.

4.6

Leigusamningur felldur niður:

4.6.1 Exton ehf. er heimilt að fella niður leigusamning einhliða og án nokkurs fyrirvara eða bótaskyldu og taka í sína vörslu hinn leigða búnað hvenær sem er á leigutímanum í eftirfarandi tilvikum:

a) Þegar leigutaki hefur brotið gegn ákvæðum þessara skilmála, eða
b) Exton ehf. hefur rökstudda ástæðu til að ætla að leigutaki muni brjóta gegn ákvæðum skilmála þessara eða leigusamnings. Í báðum tilvikum heldur Exton ehf. rétti sínum til þess að gjaldfella ógreiddar skuldir leigutaka samkvæmt skilmálum þessum eða leigusamningi og nota hverskonar tryggingar sem leigutaki hefur lagt fram, þ.m.t. skuldfærslu á kreditkort leigutaka.

Tryggingar

5.1

Leigutaki skal tryggja hinn leigða búnað til samræmis við ábyrgð sína skv. skilmálum þessum nema annað sé tekið fram.

5.2

Leigutaki skal vera lögráða einstaklingur eða eftir atvikum lögaðili. Sá sem skuldbindur lögaðila ábyrgist gagnvart Exton ehf. að hann hafi til þess fullt umboð og skal sýna fram á umboð sitt að kröfu Exton ehf., jafnframt því sem hann tekur persónulega ábyrgð á leigusamningi. Komi upp rökstuddur vafi að mati Exton ehf. um umboð þess er skuldbindur félag eða stofnun er Exton ehf. heimilt að taka hinn leigða búnað í sína vörslu á ný fyrirvaralaust og án allrar bótaskyldu hvenær sem er á leigutímanum

 

5.3

Framvísun kreditkorts leigutaka er skilyrði fyrir leigu sem trygging fyrir hvers konar aukakostnaði sem til getur fallið, svo sem vegna skemmda á búnaði, leigu ef búnaði er skilað of seint eða af öðrum ástæðum sem koma fram í skilmálum þessum. Leigutaki er þó ekki á nokkurn hátt skyldugur til þess að greiða leigu með kreditkorti, heldur er framvísun þess við gerð leigusamnings einungis trygging leigusala eins og greinir í þessu ákvæði.

Almenn ákvæði

6.1

Sé annað ekki sérstaklega tekið fram er gjalddagi leigu- og/eða sölugjalds við afhendingu hins leigða og/eða selda, og getur Exton ehf. krafist greiðslu auk áfallinna dráttarvaxta hvenær sem er eftir þann tíma, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Leigutaki samþykkir að Exton ehf. skuldfæri kreditkort leigutaka fyrir slíkum kostnaði, sbr. ákvæði 5.3

6.2

Ef ekki hefur verið samið öðruvísi skal Exton ehf. vera heimilt að nýta þegar á gjalddaga allar hugsanlegar tryggingar, sem leigutaki hefur lagt fram, ef greiðsla hefur ekki verið innt af hendi.

 

6.3

Exton ehf. annast viðgerðar- og viðhaldsþjónustu á venjulegum opnunartíma fyrirtækisins, auk þess getur leigutaki hringt í þjónustutíma Exton ehf. utan opnunartíma. Á venjulegum opnunartímum Exton ehf. getur leigutaki kallað eftir viðgerðarmanni frá Exton ehf. á staðinn, sér að kostnaðarlausu ef hinn leigði búnaður er á höfuðborgarsvæðinu. Utan venjulegs opnunartíma Exton ehf. greiðir leigutaki kostnað við útkall viðgerðarmanns. Ef hinn leigði búnaður er utan höfuðborgarsvæðisins greiðir leigutaki í öllum tilvikum ferða- og flutningskostnað vegna útkalls viðgerðarmanns.

 

6.4

Öll verð og gjöld samkvæmt skilmálum þessum fara eftir gjaldskrá Exton ehf. hverju sinni.

6.5

Óviðráðanlegar ytri aðstæður Ef óviðráðanlegar ytri aðstæður valda því að Exton ehf. verður ómögulegt að uppfylla skyldur sínar skv. leigusamningi, skal litið svo á að þær séu niður fallnar þar til mögulegt verður að efna þær.